Innlent

Héraðssaksóknari ákveður að ákæra ekki í öðru Hlíðamálinu

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Önnur nauðgunarkæra er enn á borði saksóknara.
Önnur nauðgunarkæra er enn á borði saksóknara. Vísir/Vilhelm
Mál tveggja karlmanna sem kærðir voru fyrir nauðgun í íbúð við Miklubraut hefur verið fellt niður hjá embætti héraðssaksóknara. Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari staðfestir þetta við fréttastofu en RÚV greindi fyrst frá.

Fréttablaðið greindi fyrst frá málinu en það var ung kona sem kærði mennina. Nauðgunin átti að hafa átt sér stað í íbúð í Hlíðunum eftir bekkjarskemmtun nemenda í Háskólanum í Reykjavík.

Önnur kæra til meðferðar

Málið átti sér stað í október og lagði lögmaður annars mannsins fram kæru á hendur konunni fyrir rangar sakargiftir en það mál var látið niður falla.

Önnur kona kærði annan tvímenninganna fyrir nauðgun í sömu íbúð og er það mál, samkvæmt upplýsingum fréttastofu, enn til meðferðar hjá saksóknaraembættinu.

Mótmælt fyrir utan lögreglustöðina

Málin vöktu mikla athygli og var meðal annars boðað til mótmæla fyrir utan lögreglustöðina við Hverfisgötu þar sem aðgerðarleysi lögreglunnar var mótmælt. Sú ákvörðun lögreglu að fara ekki fram á gæsluvarðhald yfir mönnunum tveimur sætti sérstakri gagnrýni.

Mikil umræða spannst einnig um málið á samfélagsmiðlum og streymdu inn færslur á Twitter með umræðumerkinu #almannahagsmunir. Mennirnir voru meðal annars nafngreindir og myndir birtar af þeim á netinu vegna málsins. Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.