Hulda Sif myndaði ellefu ungar íþróttakonur fyrir verkefni í skólanum en hún stundar nám í ljósmyndun í Hollandi. Líkt og áður segir kviknaði hugmyndin að efnistökunum eftir að Hulda Sif sá siguratriði hæfileikakeppni grunnskólanna í fyrra en þar fluttu stúlkur úr Hagaskóla femíníska ljóða- og dansgjörninginn Elsku stelpur.

Stúlkurnar á myndum Huldu Sifjar stunda allar mögulegar íþróttir og segir hún að skilaboð Hagaskólastúlknanna um að taka meira pláss hafa haft áhrif á sig.
Titillinn Just girl it er vísun í slagorð hins þekkta íþróttavörumerkis Nike, Just do it, og skýtur Hulda Sif ekki loku fyrir að hún muni vinna verkefnið eitthvað áfram en hún hefur gaman af því að taka portrettmyndir. „Mér finnst ótrúlega gaman að mynda fólk og reyna að segja sterkar sögur í gegnum portrettmyndir.“
Og þó að hún hafi tekið hluta af myndunum úti í Hollandi þá fór það þó þannig að allar íþróttastelpurnar sem hún myndaði voru íslenskar. „Það var alveg ótrúlega þægilegt að fá þær til þess að vera með og það var engin sem neitaði,“ segir hún og bætir hlæjandi við að vankunnátta hennar í hollensku hafi sjálfsagt orsakað það að þær stúlkur sem hún myndaði voru íslenskar.
Hulda Sif er nú á sínu öðru ári í ljósmyndun við Listaháskólann í Haag en hún hefur lokið námi við Ljósmyndaskólann hér heima og vann hún þá portrettseríu sem svipar ögn til Just girl it en þá var viðfangsefnið listakonur. „Þannig að þetta er kannski svona mín lína inn í þessari femínísku orku,“ segir hún glöð í bragði um Just girl it.