Þetta kemur fram í tölvupósti Vigdísar, sem ætlaður var Páli Jóhanni Pálssyni, fulltrúa Framsóknar í fjárlaganefnd, sem var fyrir mistök sendur á blaðamann Stundarinnar, Jóhann Pál Jóhannsson. Í póstinum segir Vigdís meðal annars:
„[É]g var skíthrædd við að SJS myndi fá hana – en þingið hélt trúnaði,“
Vigdís kom af fjöllum þegar Vísir náði tali af henni í kvöld en sagði að ekkert sem þarna kæmi fram mætti ekki birtast opinberlega. Aðspurð hvers vegna henni hafi verið svo mikið í mun að Steingrímur kæmist ekki í skýrsluna, segir hún fullkomlega eðlilegt að vilja halda trúnaði um svo stór mál.

Aðspurð segir hún Steingrím ekki hafa átt að fá andmælarétt í þessu máli, en hann er borinn nokkuð þungum sökum í skýrslunni, þar sem hann er meðal annars sagður hafa gengið langt í að friða kröfuhafa gömlu bankanna, svo fátt eitt sé nefnt.
„Við erum ekki að bera Steingrím þungum sökum í þessari skýrslu. Við erum að leiða það fram sem gerðist hér á síðasta kjörtímabili og það er allt saman rökstutt með opinberum gögnum. Af hverju hefði hann átt að hafa andmælarétt? Hefðum við þá ekki þurft að tala við seðlabankastjóra, ríkisendurskoðanda og fleiri?“ segir Vigdís.
Þá segir hún jafnframt að nefndin hafi óskað eftir því að óháðir aðilar verði fengnir til þess að fara yfir skýrsluna. Þá séu hugmyndir uppi um að leiða fyrir nefndina þá aðila sem fjallað var um í skýrslunni.