Þeir sem gegndu fyrrnefndum störfum fram að lagabreytingu sem gerð var í apríl 2009 þiggja eftirlaun úr ríkissjóði sem miðast við laun eftirmanna þeirra. Þannig hækka til dæmis eftirlaun fyrrverandi þingmanna nú um 44 prósent ofan á eftirlaunin eins og þau voru orðin með sjö prósent hækkun sem kjararáð ákvað í júní. Eftirlaunin eru misjöfn eftir því hversu lengi viðkomandi gegndi þingmennsku.

„Það er auðvitað alveg óþolandi þegar svona stofnanir eru aftur og aftur að úrskurða launakjör alþingismanna – sem verða auðvitað að hafa laun – þannig að það verði allt vitlaust í þjóðfélaginu,“ segir Svavar og gagnrýnir tímasetninguna beint ofan í kjördag. „Það er svo andstyggilegur svipur yfir þessu að það bara gengur ekki – það er svo einfalt mál.“
Ekki fengust upplýsingar í gær frá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins um það hversu margir einstaklingar fái nú eftirlaun sem þingmenn og ráðherrar á grundvelli launa starfandi þingmanna og ráðherra. Heldur ekki um hvaða áhrif ákvörðun kjararáðs hefur á útgreiðslu til þessa hóps.
Á vefsíðu Alþingis kemur hins vegar fram að um 150 séu í Félagi fyrrverandi alþingismanna. Svavar Gestsson segir það ekki tæmandi tölu því ekki séu allir fyrrverandi þingmenn í félaginu auk þess sem inni í þeirri tölu sé enginn þeirra sem voru að hætta á þingi um helgina.
Svavar segir Félag fyrrverandi alþingismanna ekki munu tjá sig um ákvörðun kjararáðs. Félagið geri ekki annað en að fara í eitt ferðalag árlega. „Það er enginn sem getur gert neitt í þessu nema Alþingi,“ undirstrikar hann.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.