Flugáætlanir flugfélagsins WOWair breytast ekki vegna voðaverkanna í Nice en næsta áætlunarflug verður farið á sunnudaginn næstkomandi. Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi WOW, segir ákvörðun hafa verið tekna um þetta í morgun.
Ástandið í borginni er afar viðkvæmt eftir að maður á vörubíl ók inn í stóran hóp af fólki á Promenade de Anglaise þar sem fjöldinn allur var samankominn til þess að fylgjast með flugeldasýningu í tilefni af Bastilludeginum.
WOW air er eina íslenska flugfélagið sem flýgur beint til Nice.
Vél frá flugfélaginu fór frá Íslandi til Nice í gær klukkan þrjú en það var nokkru áður en árásin var gerð. Róslín Alma Valdemarsdóttir, farþegi vélarinnar, hafði verið í klukkustund í borginni þegar hún heyrði öskur og óp. Vísir ræddi Róslín í gær.
Nice hefur að sögn Svanhvítar verið ákaflega vinsæll ferðamannastaður á meðal Íslendinga í sumar og hafa flugvélarnar héðan iðulega verið stappfullar.
Þá lenti flugvél frá Nice í Keflavík í nótt en vélin lagði af stað áður en voðaverkin áttu sér stað.

