„Ég var bara í heitum potti á sólpalli á Akureyri þegar ég er laminn í hnakkann og svo er ég stunginn í tvígang og höndin á mér brotin,“ segir þolandi árásarinnar síðastliðinn laugardagsmorgun.

Maðurinn segir að ráðist hafi verið á sig með barefli og eggvopni og hann fluttur meðvitundarlaus upp á Glerárdal ofan við Akureyri. Þar fannst hann með mikla áverka og búinn að missa á annan lítra af blóði. Var hann fluttur rænulítill á sjúkrahús.
Ekki er nákvæmlega vitað hversu margir voru að verki en sá sem talinn er hafa veist að manninum með eggvopni á laugardagsmorgninum var handtekinn fljótlega og situr hann nú í gæsluvarðhaldi til föstudags, til að tryggja rannsóknarhagsmuni vegna líkamsárásarinnar. Talið er að tveir til þrír aðrir hafi aðstoðað við að flytja manninn særðan upp fyrir bæinn úr alfaraleið.

„Við fengum tilkynningu um að maður hefði slasast á gönguleið upp í Fálkafell á laugardagsmorgun. Það voru göngumenn sem komu auga á manninn. Síðan reyndist svo ekki vera enda var hann fluttur nauðugur upp eftir. Stuttu seinna handtókum við meintan árásarmann, tókum af honum skýrslu og í kjölfarið var hann úrskurðaður í gæsluvarðhald til föstudags,“ segir Guðmundur.
„Enn erum við að rannsaka nákvæma málavöxtu en rannsókn miðar vel. Allt eru þetta einstaklingar sem við þekkjum til og hafa komið við sögu hjá okkur áður.“