Forsætisráðuneytið hafnaði í gær bótakröfu tveggja húseigenda vegna friðunar á tveimur húsum hér í borg. Samanlögð bótakrafa hljóðaði upp á um 435 milljónir króna.
Húsin tvö sem um ræðir eru Klapparstígur 19 og Holtsgata 5 í póstnúmeri 101. Með gildistöku laga um menningarminjar árið 2013 voru bæði húsin friðuð þar sem rúmlega hundrað ár voru frá því þau voru reist. Áður höfðu eigendur þeirra farið fram á að friðunin yrði felld úr gildi en því var hafnað.
Í núgildandi deiliskipulagi Reykjavíkurborgar hefur verið heimilað að rífa bæði húsin en friðun þeirra stendur í vegi fyrir því. Telja eigendur að með því sé gengið á rétt þeirra og því eigi þeir rétt á bótum. Í lögum um menningarminjar er að finna bótaákvæði en það er skilningur Minjastofnunar að svo að til bóta geti komið verði stofnunin að eiga einhvern þátt í friðuninni. Svo var ekki í þessum tilfellum þar sem húsin hafi friðast sjálfkrafa með gildistöku laganna. Forsætisráðuneytið hefur fallist á túlkun stofnunarinnar og hafnar því bótaskyldu.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.

