Innlent

Á frekar von á að læknar samþykki samninginn

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Þorbjörn Jónsson, formaður Læknafélagsins, í karphúsinu í nótt. Í bakgrunni sést glitta í Sigurveigu Pétursdóttur, formann samninganefndar lækna, þar sem hún gæðir sér á vöfflu.
Þorbjörn Jónsson, formaður Læknafélagsins, í karphúsinu í nótt. Í bakgrunni sést glitta í Sigurveigu Pétursdóttur, formann samninganefndar lækna, þar sem hún gæðir sér á vöfflu. Vísir/Egill Aðalsteinsson
Þorbjörn Jónsson, formaður Læknafélagsins, segir það ákveðinn létti að samningar hafi náðst á milli lækna og ríkisins og verkfalli hafi verið aflýst.

Fjöldi lækna hefur sagt upp störfum á Landspítalanum síðustu misseri en aðspurður segir Þorbjörn að það verði að koma í ljós hvort einhverjir þeirra dragi uppsagnir sínar til baka nú þegar samningar liggja fyrir.

„Við vonum auðvitað að sem flestir læknar ílengist hérna í starfi, það er ekki því að neita,“ segir Þorbjörn.

Ertu ánægður með niðurstöðuna?

„Ég myndi segja að ég væri sáttur við niðurstöðuna. Síðan verður auðvitað að koma í ljós hvort að félagsmenn samþykkja samninginn en ég á nú frekar von á því.“ Hann býst við því að samningurinn verði lagður fyrir félagsmenn síðar í þessum mánuði.

Verkfall lækna hefur haft gríðarleg áhrif á heilbrigðiskerfið og hafa biðlistar til að mynda lengst verulega á Landspítalanum. Þorbjörn telur að það muni taka nokkurn tíma að leysa úr þeim vanda sem og öðru sem komið hefur upp vegna verkfallsins.

Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, vill að Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, setji upp aðgerðaáætlun til að vinna niður biðlistana.

Þingmaðurinn segir fjármagn þurfa í slíka áætlun og ef að hún liggi ekki fyrir þegar þing kemur saman muni hann leggja fram þingsályktunartillögu um átak til að útrýma biðlistum strax í byrjun þings.


Tengdar fréttir

Verkfalli lækna frestað

Samningar náðust í deilu lækna við íslenska ríkið á þriðja tímanum í nótt.

„Algjör uppstokkun á samningi lækna“

"Mér líður bara vel. Ég vona að landsmenn séu ánægðir með að verkfalli verði aflýst,“ segir Sigurveig Pétursdóttir, formaður samninganefndar lækna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×