Innlent

Ekki fundað sérstaklega án gerðardóms

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Félag hjúkrunarfræðinga skrifaði undir kjarasamning í júní sem síðan var hafnað í atkvæðagreiðslu.
Félag hjúkrunarfræðinga skrifaði undir kjarasamning í júní sem síðan var hafnað í atkvæðagreiðslu. vísir/gva
„Við höfum verið að hitta gerðardóm núna reglulega síðustu vikurnar og farið yfir okkar kröfur. Samninganefndin hefur verið á þeim fundum líka,“ segir Ólafur G. Skúlason, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

Hjúkrunarfræðingar felldu í júlí kjarasamning og hefur deilu þeirra verið vísað í gerðardóm. Félagið hefur stefnt ríkinu vegna laga sem sett voru á verkfall þeirra.

„Við höfum ekkert hitt samninganefndina á sérstökum fundum, þetta hefur allt farið í gegnum gerðardóm,“ segir Ólafur.

Gerðardómur hefur samkvæmt lögunum vikufrest, til 15. ágúst, til að skila niðurstöðu sinni um kaup og kjör félagsmanna í Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga sem og BHM.

Næsta fyrirtaka í dómsmáli félagsins gegn ríkinu er á fimmtudaginn í næstu viku.

„Við teljum ekki hafa verið grundvöll fyrir því að banna verkföll hjúkrunarfræðinga og að gerðardómur geti ekki tekið til starfa í okkar tilfelli miðað við orðun laganna,“ segir Ólafur og bætir við að félagið og lögfræðingur þess telji málið ólíkt öðrum verkfallsmálum.

„Verkfallið hafði aðeins staðið í tvær vikur og aðeins fjórtán fundir höfðu samtals farið fram í öllum viðræðunum. Þannig að við teljum að forsendurnar í okkar tilfelli séu öðruvísi en í öðrum sambærilegum málum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×