Ferðaþjónustan hefur bæði skilað gríðarlegum gjaldeyristekjum í þjóðarbúið og sömuleiðis hefur fjölgun starfa í greininni verið stór þáttur í minnkandi atvinnuleysi á landinu. Segir í greiningu Íslandsbanka að af þeim rúmlega tíu þúsund nýju störfum sem hafa skapast á landinu frá árinu 2010 hefur um helmingur þeirra orðið til í ferðaþjónustu. Atvinnuleysi á landinu hefur lækkað hægt og bítandi frá hruni. Atvinnuleysi fór hæst í rúm ellefu prósent í maí árið 2010 en mældist 4,4 prósent í janúar.


Gjaldeyristekjur af ferðaþjónustunni hafa einnig aukist samhliða þessum vexti og eru tekjur af ferðamönnum einnig stærri hluti af heild en áður. Árið 2009 voru gjaldeyristekjurnar um fimmtungur af heildarútflutningi vöru og þjónustu. Greiningardeild Íslandsbanka áætlar að tekjurnar á þessu ári verði um 342 milljarðar íslenskra króna, eða um 29 prósent af heildinni. Ferðaþjónustan er því stærsti einstaki hluturinn í öfluðum útflutningstekjum. Útflutningstekjur ferðaþjónustunnar árið 2014 voru 302 milljarðar króna samanborið við 241 milljarð hjá sjávarútveginum.
Ferðaþjónustan er því fjórðungi stærri en sjávarútvegurinn þegar kemur að útflutningstekjum. „Auðvitað hljótum við að horfa til þess að stjórnvöld fari í meiri mæli að horfa til mikilvægis greinarinnar og byggja upp innviði og annað til að tryggja vöxt hennar og viðgang. Það er mikilvægt að á meðan greinin vex svona hratt að bæði ferðaþjónustan og stjórnvöld gangi í takt því sameiginlegir hagsmunir eru miklir,“ segir Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri SAF.

Langflestir ferðamenn sem heimsækja landið koma í gegnum Leifsstöð. Áætlað er að á þessu ári muni 1,2 milljónir ferðamanna koma í gegnum þá gátt til landsins og að um 150 þúsund ferðamenn komi í gegnum aðra staði á landinu. Áætlar greiningardeildin að um 1.350 þúsund ferðamenn heimsæki Ísland á árinu sem er fjölgun um tæpan fjórðung. Samkvæmt þessu verða ferðamenn því fjórfalt fleiri en Íslendingar.
Hótelnýting góð
Á síðasta ári var nýting hótelherbergja á höfuðborgarsvæðinu í sögulegu hámarki. 84 prósent nýting hótelherbergja er betri nýting en í London, Amsterdam og fleiri borgum Evrópu. Áætlað er að um 4.500 hótelherbergi verði til á suðvesturhorni landsins í árslok 2016, eða þriðjungsfjölgun. Þrátt fyrir þá miklu fjölgun áætlar greiningardeild Íslandsbanka að þörf sé á þessum hótelrýmum og telur að nýtingarhlutfallið verði enn mjög hátt. Um 700 ný hótelherbergi munu fara í rekstur á árinu og mæta þar með aukinni eftirspurn eftir hótelgistingu á svæðinu.
„Greiningaraðilar hafa bent á að samhliða, þrátt fyrri fjölgun hótelherbergja, hefur nýtingarhlutfallið aukist. Því er þessi fjölgun í takt við það. Mikilvægt er að byggt sé upp í línu við stefnu greinarinnar hvað varðar tegund vaxtar, við viljum fjölga verðmætum ferðamönnum og þá þarf uppbygging, meðal annars gististaða, að endurspegla það,“ segir Helga.
800 ferðir til tunglsins
Bílaleigur í rekstri á Íslandi eru nú orðnar yfir 150 talsins. Árið 2003 var 51 starfandi bílaleiga á landinu. Sú fjölgun á tímabilinu er í sama hlutfalli við fjölgun ferðamanna, sem hefur þrefaldast á sama tíma. Nærri níu af 10 bílaleigubílum í umferð árið 2014 voru innan við fimm ára gamlir og þriðjungur þeirra nýir bílar.
Bílaleigur eru af þessum sökum gríðarlega umsvifamikill aðili í kaupum á nýjum bílum. Standa bílaleigur undir 40 prósentum af kaupum á nýjum bílum á landinu. Frá árinu 2010 hefur þetta hlutfall verið mjög stöðugt og því hafa bílaleigur undanfarin fimm ár keypt um helming allra nýrra bíla á landinu.
Bílaleigubílar hér á landi keyrðu rúmar 300 milljónir kílómetra á síðasta ári sem eru um 230.000 ferðir á hringveginum. Kílómetrafjöldinn samsvarar einnig 400 ferðum til tunglsins og aftur til baka.