Innlent

Núverandi staða stefni velferð dýra í voða

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Formaður umhverfisnefndar Fljótsdalshéraðs efast um að staðan standist lög.
Formaður umhverfisnefndar Fljótsdalshéraðs efast um að staðan standist lög. vísir/stefán
Umhverfis- og framkvæmdanefnd Fljótsdalshéraðs vill að bæjarstjórn sveitarfélagsins, Matvælastofnun (MAST) og ráðherra landbúnaðarmála komi í veg fyrir að það endurtaki sig að stór hluti Austurlands verði dýralæknislaus.

„Dýralæknirinn á svæðinu fór í þriggja vikna frí í desember og á meðan var hér aðeins dýralæknir á bakvakt frá Vopnafirði,“ segir Árni Kristinsson, formaður umhverfis- og framkvæmdanefndar. Svæðið sem um ræðir er Fljótsdalshérað og hreppur, Borgarfjarðarhreppur, Seyðisfjarðarkaupstaður og hluti Fjarðabyggðar.

Árni Kristinssonmynd/skarphéðinn þórisson
„Áður voru hér tveir héraðsdýralæknar í fullu starfi en með tilkomu MAST er héraðsdýralæknirinn í raun aðeins skrifstofulæknir sem sinnir ekki skepnum,“ segir Árni.

Eftir standi að maður í hálfu starfi sinni gífurlegu landsvæði. Árni veltir því fyrir sér hvort það fyrirkomulag brjóti í bága við lög um velferð dýra.

Í tilkynningu á heimasíðu MAST segir að í þrígang hafi verið auglýst eftir dýralæknum til að þjónusta svæðið en án árangurs. Lagt hefur verið til að reglugerð verði breytt á þann veg að hægt verði að bjóða upp á hundrað prósent stöðu í stað fimmtíu prósent stöðu eins og staðan er nú.

„Ég held að ríkið verði að koma að þessu með aukið fjármagn. Einkareksturinn hefur ekki skilað nægu hingað til,“ segir Árni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×