Innlent

Krefst hlutdeildar í laxveiðiarði Blönduóss

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Arður Blönduósbæjar af veiði í Blöndu nam 14,9 milljónum á fimm árum.
Arður Blönduósbæjar af veiði í Blöndu nam 14,9 milljónum á fimm árum. Fréttablaðið/GVA
Eigandi lögbýlisins Kleifa á vestanverðum bökkum Blöndu krefst þess að sveitarfélagið greiði honum 927 þúsund krónur vegna arðs sem Blönduósbær hafði af veiðiréttindum árin 2009 til 2013.

Eigandi Kleifa og Blönduósbær hafa um árabil átt í deilu vegna málsins. Eigandinn er dóttir manns sem eignaðist samtals 18 hektara úr jörðinni á fjórða, fimmta og sjötta áratug síðustu aldar, að því er kemur fram í bréfi lögmanns konunnar til bæjaryfirvalda. Um sé að ræða erfðafestuland og erfðaábúðarland sem orðið hafi að nýbýlinu Kleifum árið 1951. Þetta land eigi 607 metra meðfram bökkum Blöndu og þar með 6,24 prósent af því bakkalandi sem heyri undir sveitarfélagið. Fyrir þessa eign hafi Blönduós fengið samtals nærri 14,9 milljónir króna í arð á fyrrnefndu árabili og krefst konan hluta af þeirri upphæð.

Bærinn hins vegar hafnar kröfu konunnar og bendir á það á móti að hún skuldi bæjarfélaginu 3,7 milljónir króna vegna kvóta sem seldur hafi verið af jörðinni árið 1995. Og ætli hún að hætta vinsamlegum viðræðum sem verið hafi í gangi frá árinu 2009 eftir að ábúðarsamningi var sagt upp sé þess krafist að hún rými eignina hið fyrsta.

Lögmaður konunnar mótmælir harðlega „öllum hugmyndum“ Blönduósbæjar um uppsögn á afnotum hennar af landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×