Innlent

Leitarbeiðnum hefur fækkað

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu.
Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu. mynd/aðsend
Tilfellum þar sem óskað er leitar Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu (LRH) að börnum á aldrinum ellefu til sautján ára hefur fækkað umtalsvert frá árinu 2010. Þá voru tilfellin 219 en voru 131 á árinu sem leið. Þetta kemur fram í svari LRH við fyrirspurn Fréttablaðsins.

Í upplýsingunum kemur einnig fram að fækkunina megi að mestu leyti rekja til þess að leitað hefur verið að færri piltum. Kynjahlutfallið hefur jafnast út. Meðalaldur pilta sem leitað er að hefur farið lækkandi á meðan meðalaldur stúlkna hefur hækkað. Á árum áður var þessu þveröfugt farið.

Á síðustu sjö árum voru skráð 1.238 tilfelli þar sem óskað var eftir því að Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leitaði að börnum á aldrinum ellefu til sautján ára.

Þessar tölur ná aðeins til höfuðborgarsvæðisins og sýna aðeins leitarbeiðnirnar. Að baki hverrar beiðni geta verið fleiri en einn einstaklingur og stundum er leitað oft að sama einstaklingi yfir árið.

„Við reynum að skrá allar okkar ársskýrslur og tölfræði mjög nákvæmlega til að sjá hvort það sé einhver þróun í gangi,“ segir Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu. Hann segir að þrátt fyrir það sé ekki hægt að rekja þessar breytingar til neinna ákveðinna þátta.

„Þetta eru einfaldlega hlutir sem rokka eilítið á milli ára og erfitt að sjá nokkurt mynstur út úr því,“ segir Bragi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×