Lífið

Friðrik Dór sækir grunnskólana heim fyrir Eurovision

Atli Ísleifsson skrifar
Friðrik Dór var í Sæmundarskóla í Grafarholti í morgun þar sem hann spilaði fyrir um fimm hundruð börn.
Friðrik Dór var í Sæmundarskóla í Grafarholti í morgun þar sem hann spilaði fyrir um fimm hundruð börn. Vísir/Ernir
„Við höfum farið í nokkra grunnskóla. Við höfum sent út boð á skólastjórnendur og spurt hvort þeir hefðu áhuga á að fá okkur í heimsókn,“ segir Friðrik Dór sem flytur lagið Í síðasta skipti eftir lagahöfundana í StopWaitGo á úrslitakvöldi Söngvakeppni Sjónvarpsins á laugardag.



Friðrik segir að í morgun hafi hann verið í Sæmundarskóla í Grafarholti þar sem þeir hafi spilað fyrir um fimm hundruð börn. „Að sjálfsögðu höfum við ekki verið með beinan áróður. Við syngjum nokkur lög og Eurovision-lagið þeirra á meðal.“



Friðrik segir baráttuna klárlega vera mikla fyrir úrslitakvöldið enda fullt af flottum lögum og flottum flytjendum. „Ég efast ekkert um það að menn séu að reyna að ota sínum tota þar sem þeir geta. Við erum að reyna að breiða út boðskapinn með hinum ýmsu leiðum, hvort sem það eru samfélagsmiðlar eða heimsóknir á staði þar sem hægt er að hitta fyrir mikinn fjölda fólks, bæði vinnustaði og skóla.“




Að sögn Friðriks er hann ekki með tölu á fjölda þeirra grunnskóla sem hann hafi farið í til að syngja síðustu daga og vikur. „Þetta er þó enginn agalegur fjöldi.“




Friðrik segir annars að laugardagurinn leggist vel í sig. „Við erum að skoða hina ýmsu hluti sem snúa að okkar atriði, fínpússa þetta eitthvað til. Við erum bjartsýnir á að flutningurinn gangi vel en svo veit maður ekkert hvernig kosningin fer. Það er eitthvað sem við höfum engin áhrif eða stjórn á. Það eina sem við getum gert er að hafa atriðið þannig að öllum líði vel. Það er flott umgjörð í kringum þetta og það er virkilega skemmtilegt að fá að taka þátt í þessu öllu saman.“



Tengdar fréttir

Söngvakeppnin brýtur eigin reglur

Nöfn dómnefndarmanna áttu að vera opinber viku fyrir úrslitin - Leynidómnefndin sem valdi lag í úrslitin fæst ekki opinberuð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×