Lífið

Helga Möller var hvorki stressuð né með Parkinson

Samúel Karl Ólason skrifar
Helga Möller á sviði í gær.
Helga Möller á sviði í gær. Vísir/Þórdís Inga Þórarinsdóttir
Söngkonan Helga Möller, ein fyrsta Eurovision-stjarna Íslands, sá ástæðu til að senda frá sér tilkynningu á Facebook í dag í kjölfar þess að hún kom fram á undanúrslitakvöldi Eurovision í gærkvöldi. Athygli vakti að hendur hennar skulfu mikið og veltu sumir fyrir sér hvort Helga væri komin með Parkinson eða væri hreinlega að farast úr stressi.

Helga var hluti af atriði þar sem fimm af okkar bestu söngkonum sungu lagið Heyr mína bæn við frábærar undirtektir áhorfenda í Háskólabíó. Söngkonan segist hafa heyrt af fyrrnefndum getgátum fólks en sem betur fer sé ekket alvarlegt að.

„Ég get glatt ykkur með því að svo er ekki en ég er vissulega með handskjálfta sem er því miður í fjölskyldunni og til gamans köllum við mamma „skjálftavaktina“,“ segir Helga.

„Ég var ekkert stressuð í gær eins og kannski heyrðist á söngnum en vissulega spennt sem ýkir handskjálftann. Ég vildi bara koma þessu á framfæri svo ekki færu af stað sögusagnir af veikindum sem ekki eru til staðar.“

Helga Möller var sem kunnugt er fulltrúi Íslands í Eurovision árið 1986, er Ísland tók fyrst þátt, þegar hún flutti Gleðibankann ásamt Eiríki Haukssyni og Pálma Gunnarssyni.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×