„Þetta er bara einhver misskilningur hjá henni,“ segir Björn Þorvaldssons sem sótti Al Thani-málið fyrir hönd embættis sérstaks saksóknara en í því hlutu Hreiðar Már Sigurðsson, Sigurður Einarsson, Magnús Guðmundsson og Ólafur Ólafsson þunga dóma í Hæstaréttir fyrir markaðsmisnotkun.
Ingibjörg Kristjánsdóttir, eiginkona Ólafs Ólafsson til þrjátíu ára, heldur því fram að niðurstaða Hæstaréttar byggi á misskilningi. Hún segir Hæstarétt vísa í forsendum dómsins til símtals í gögnum málsins þar sem fram kemur að ítrekað sé rætt við „Óla“ um nákvæma útfærslu viðskiptanna.
Sjá einnig:Segir Hæstarétt hafa ruglað saman Ólum í Al Thani-dómi
„Hæstiréttur fer mannavillt í rökstuðningi sínum og ályktar að hér sé átt við eiginmann minn, Ólaf Ólafsson, en hið rétta er að um er að ræða lögfræðing með sama fornafni sem er sérfræðingur í lögum um kauphallarviðskipti,“ skrifar Ingibjörg.
Björn Þorvaldsson segir þetta vera misskilning hjá Ingibjörgu. „Sá Ólafur sem er talað um í þessu símtali er örugglega Ólafur Ólafsson og þess utan þá er miklu meira af gögnum í málinu sem benda á hans aðkomu. Það er ekki þannig að málið standi bara með þessu símtali,“ segir Björn.

