Enski boltinn

Eiður Smári verður lykilmaður í að koma Bolton upp í efstu deild

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Eiður Smári skoraði sex mörk í 24 leikjum fyrir Bolton á síðustu leiktíð.
Eiður Smári skoraði sex mörk í 24 leikjum fyrir Bolton á síðustu leiktíð. vísir/afp
Neil Lennon, knattspyrnustjóri Bolton, ætlar að treysta á góða blöndum af ungum leikmönnum og reyndari þegar kemur að sóknarleiknum á næstu leiktíð.

Hann vonast til að sóknarmenninrnir ungu, Max Clayton og Zach Clough, verði við heilsu, en þeir voru báðir mikið meiddir á síðustu leiktíð.

Þá er félagið í samningaviðræðum við hina þrautreyndu Emile Heskey og Eið Smára Guðjohnsen, en Eiður Smári spilaði frábærlega með Bolton á síðustu leiktíð.

Sóknarleikur er það sem kemur liðum upp úr B-deildinni á Englandi að mati Lennons, en Bournemouth og Watford, liðin sem höfnuðu í tveimur efstu sætum deildarinnar, skoruðu yfir 90 mörk í vetur.

„Þetta er eitthvað sem ég hef alltaf trúað. Ég hef alltaf reynt að vera ekki varnarsinnaður þjálfari. Þið hafið séð hvað við reynum að gera í sóknarleiknum, sérstaklega á heimavelli,“ segir Lennon í viðtali við MEN.

„Ég er ekki viss um að við séum með nógu góða leikmenn til að spila eins á heimavelli og á útivelli, en ég vil spila fallegan fótbolta á heimavelli.“

„Ef við fáum Clayton aftur og Clough ásamt Heskey og Guðjohnsen og bætum við okkur nokkrum fljótum leikmönnnum held ég að við getum notast við þessa hugmyndafræði,“ segir Neil Lennon.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×