Báðar flugvélar EasyJet sem þurftu að lenda á Egilsstöðum fyrr í dag vegna óveðurs á suðvesturhorni landsins eru nú lentar á Keflavíkurflugvelli. Farþegar bíða þó enn úti á flugbraut þar sem ekki er hægt að afgreiða flugvélar vegna roks.
Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu mælist vindhraði við flugvöllinn nú um 22 metrar á sekúndu að jafnaði en þrjátíu metrar í hviðum.
Samkvæmt heimasíðu Keflavíkurflugvallar bíða þar einnig vélar frá Wow Air og önnur er væntanleg á vegum Primera Air klukkan kortér yfir átta. Eftir því sem fréttastofa kemst næst er gert ráð fyrir að farþegarnir þurfi að bíða um borð í vélunum í eina til tvær klukkustundir til viðbótar.
Uppfært klukkan 21.25: Engin vél hefur enn fengið að fara frá Keflavíkurflugvelli. Næstu brottfarir eru áætlaðar klukkan 22.00.
Flugvélar sitja fastar á flugbrautinni í Keflavík

Tengdar fréttir

Farþegar Easy Jet sitja fastir á Egilsstöðum
Vélar frá Basel og Edinborg gátu ekki flogið til Keflavíkur vegna veðurs.