Eins og Fréttablaðið greindi frá þýðir kvótasetning makríls í öllum útgerðarflokkum að margir smábátasjómenn fá ekki heimildir sem standa undir veiðum. Af 192 bátum sem veitt hafa makríl frá 2009 fá 24 bátar um 55% af kvótanum. Landssamband smábátaeigenda (LS) gagnrýnir Sigurð Inga Jóhannsson sjávarútvegsráðherra hart og segir vinnubrögð hans forkastanleg og hefur óskað eftir fundi með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra vegna málsins.
Í bréfi smábátaeigenda þar sem fundar er óskað segir: „Fullyrða má að þeir aðilar sem aflað hafa meira en 500 kíló – 149 bátar – séu búnir að koma sér upp sérstökum búnaði til veiðanna sem er sérsniðinn að hverjum bát, þróaður og smíðaður hér á landi. Hluti bátanna hefur einnig fest kaup á fiskleitartæki. Kostnaður á hvern bát er frá 5 milljónum upp í 12 milljónir.“ LS telur að við inngrip af þessu tagi þurfi alltaf að meta hvað ávinnist við breytingu og hverju sé verið að fórna, svo vitnað sé aftur í bréfið.

Samkvæmt gögnum Fiskistofu fá um 30 bátar úthlutun sem hleypur á 70 til 330 tonnum byggt á veiðireynslu síðustu sex ára. Aðrir bátar fá minna og margir langt um minna og heimildir sem aldrei standa undir útgerð í tegundinni. Þar af eru margir bátar sem fá nokkur kíló eða fáein tonn – afli sem mun aldrei fást úr sjó þar sem óheimilt er að sameina veiðiheimildir eða selja þær öðrum. Ljóst virðist að allstór hluti þessa rúmlega 7.000 tonna kvóta sem smábátum var ætlað að veiða fellur dauður niður.