Enski boltinn

Rodgers gagnrýnir hegðun Balotelli

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Brendan Rodgers, stjóri Liverpool, var spurður um umdeilt atvik sem átti sér stað í leik Liverpool og Besiktas í Evrópudeild UEFA á blaðamannafundi í dag.

Mario Balotelli tryggði Liverpool 1-0 sigur með marki úr vítaspyrnu en svo virtist sem að hann væri að taka spyrnuna í leyfisleysi. Hann gaf sig ekki þrátt fyrir rifrildi við Jordan Henderson sem var fyriliði Liverpool í fjarveru hins meidda Steven Gerrard.

Sjá einnig: Henderson: Ég vildi taka vítið

„Það eina sem ég vil segja er að þetta er hegðun sem ég er ekki hrifin af,“ sagði Rodgers um málið í dag. „Hvort sem þetta er mitt lið eða eitthvert annað lið. Flestir þjálfarar eru búnir að ákveða fyrirfram hverjir taka vítin.“

„Maður vill ekki sjá 4-5 leikmenn rífast um hver eigi að taka vítið. Það er því hegðunin sem var fyrst og fremst ekki góð en við unnum leikinn og það skipti mestu máli.“

Gerrard sagði eftir leikinn að Balotelli hafi sýnt Henderson og liðsfélögum sínum óvirðingu og fjölmargir hafa tekið undir þau orð. Rodgers telur ekki að orð hans muni valda sundrun í leikmannahópnum.

Sjá einnig: Gerrard: Mario sýndi Henderson smá óvirðingu

„Maður reynir að stýra svona hlutum á bak við tjöldin á hverjum degi. Maður vill sjá að leikmenn séu með rétt hugarfar og beri virðingu fyrir liðsfélögunum. Ég tel að þetta sé alls ekkert vandamál.“

Daniel Sturridge og Jordan Henderson reyna að tjónka við Mario Balotelli í gær.Vísir/Getty
Rodgers segir að Gerrard sé öllu jöfnu vítaskytta liðsins þegar hann spilar. Balotelli tekur vítin í fjarveru hans en miðiða við byrjunarliðsuppstillinguna í gær var Henderson vítaskytta liðsins, þar sem Balotelli kom inn á sem varamaður í leiknum.

Sjá einnig: Balotelli þakkaði Henderson fyrir að leyfa sér að taka vítið

„Þegar þeir eru allir þrír inni á vellinum þá taka Steven og Mario venjulega vítin. Þannig að þetta er breytilegt. Jordan ber þá virðingu fyrir Mario að hann er frábær vítaskytta og leyfði honum glaður að taka vítið.“

„Það hefur verið mun meiri dramatík í kringum þetta mál hjá ykkur fjölmiðlum en okkur í liðinu,“ bætti hann svo við.

Sjá einnig: Vítaspyrna Balotelli tryggði sigurinn

Jamie Redknapp, sérfræðingur á Sky Sports og fyrrum leikmaður Liverpool, var ekki hrifinn af framkomu Balotelli.

„Allir þeir stjórar sem hafa starfað með honum hafa reynt sitt besta en hann virðist ekki bera virðingu fyrir neinum - ekki einu sinni liðsfélögum sínum. Allir hjá Liverpool hafa reynt að koma honum í gang og vonandi tekst það. En ég tel ekki að eigi sér ekki langa framtíð hjá félaginu.“

„Ég held að hann verði ekki í byrjunarliðinu um helgina og ég held að í sumar verði hann farinn frá félaginu,“ sagði Redknapp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×