„Ég held að gripurinn muni pottþétt koma til með að veita mér mikla lukku,“ segir söngkonan og Eurovision-prinsessan okkar María Ólafsdóttir. Hún fór út til Vínar í gær ásamt hópnum, en tók þó með sér sérstakan lukkugrip sem tónlistarmaðurinn og fyrrverandi Eurovision-farinn Friðrik Ómar Hjörleifsson lét hana hafa eftir að hún sigraði í keppninni hér á landi.
„Þessi gripur hefur gengið manna á milli en samt alltaf endað hjá mér í millitíðinni. Þetta eru íslensk tröll sem bera íslenskan fána, þetta eru hinar sönnu íslensku rætur,“ segir Friðrik Ómar léttur í lundu spurður út í gripinn.
„Hann á sér allavega sex ára sögu því hann fór fyrst út með Jóhönnu Guðrúnu árið 2009 og hann hefur því líklega farið víðar heldur en flestir aðrir lukkugripir. Hann á eftir að veita Maríu lukku, það er alveg pottþétt,“ bætir Friðrik Ómar við og hlær.

