Innlent

Lokuð inni í eigin íbúð með fjölfatlaða dóttur

Stefán Árni Pálsson skrifar
Hrafnhildur Sigurvinsdóttir brotnaði illa á heimili sínu á föstudaginn.
Hrafnhildur Sigurvinsdóttir brotnaði illa á heimili sínu á föstudaginn. vísir/vilhelm
„Það þarf algjörlega að fylgjast með henni allan sólahringinn,“segir Arndís Einarsdóttir, sem er móðir fjölfatlaðrar konu, sem fótbrotnaði á dögunum. Arndís var gestur í þættinum Í bítið á Bylgjunni í morgun.

Dóttir hennar heitir Hrafnhildur Sigurvinsdóttir og er tuttugu og tveggja ára. Hún er hreyfihömluð, andlega fötluð og greind með ofvirkni og athyglisbrest.  

„Hún er með lélegt jafnvægi, viðkvæm bein og á til að detta auðveldlega. Þetta á því ekki vel saman.“

Hrafnhildur datt illa á heimili sínu síðastliðin föstudag og fótbrotnaði illa.

Fór strax í aðgerð

„Hún fór í aðgerð daginn eftir og má ekki stíga í fótinn í allavega sex vikur. Ef við göngum út frá því að þetta grói eins og hjá öðrum, þá ætti hún að vera orðin góð í vor eða sumar,“ segir Arndís en dóttir hennar verður bundin við hjólastól næstu vikur. Hún segir að dóttir sín sé í skammtímavistun aðra hverja viku á Holtavegi.

„Það er bara svo mikil mannekla þarna og ég hringdi í dagvistunina í gær og þeir treysta sér ekki til að taka hana. Hún þarf rosalega mikla aðstoð núna,“ segir Arndís en þær mæðgur búa saman í kjallaraíbúð.

„Ég kemst ekki út með hana, alveg sama hvað ég reyni. Ég kemst ekki með hana upp tröppurnar í hjólastólnum og ekki niður með hana heldur.“

Hrafnhildur hefur verið með umsókn um búsetu hjá Reykjavíkurborg í ferli í mörg ár

Ekkert búsetuúrræði

„Nýjustu fréttir, síðan í gær, eru þær að það er ekkert að gerast í þeim málum. Hún var efst á lista í sinni þjónustumiðstöð sumarið 2013 og kom alveg til greina, en þá fékk hún ekki búsetu og síðan þá hefur ekkert gerst.“

Hvorki Arndís né dóttir hennar komast því út úr húsi næstu vikurnar.

„Það vantar alveg eitthvað kerfi sem fer í gang þegar svona slys á sér stað og tekur utan um manneskjuna. Til dæmis bara einhverskonar heimilishjálp.“

Arndís gafst upp á því fyrir fjórum árum að vera útivinnandi og hefur síðan þá þurft að vera heima. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×