Aðalheiður Guðmundsdóttir er nýkrýndur Íslandsmeistari í Módelfitness/bikini fitness og Magnea Gunnarsdóttir var í öðru sæti í módelfitness/bikini fitness á Arnold Classic USA 2014. Auk þeirra birtast Jóhann Þór Friðgeirsson og Teitur Arason hafa náð langt í Fitness hér heima.

„Tökurnar gengu mjög vel en það var auðvitað svolítið púsl að fá allar þessar hetjur í myndbandið, því þetta er fólk sem er yfirleitt mjög upptekið,“ útskýrir Erpur. Myndbandið var skotið í desembermánuði og tóku tökurnar einn sólarhring. „Við unnum sleitulaust í einn sólarhring, menn skiptust bara á að borða og svona. Þetta var keyrsla.“
Erpur segir íþróttahetjurnar hafa sýnt mikla þolinmæði á meðan tökum stóð. „Fólk lagði ýmislegt á sig. Til dæmis var Gunnar Nelson að drepast úr mígreni. En hann er svo grjótharður og sýnir svo lítil svipbrigði að maður tekur ekkert eftir því í myndbandinu.“
Hér má sjá myndbandið en umfjöllunin heldur áfram fyrir neðan það:

„Þar sem myndbandið var tekið upp á miðju handboltatímabilinu vantaði okkur eitthvað af landsliðsmönnunum í myndbandið. En í staðinn fékk ég upphitunartreyjuna hans Björgvins Páls Gústavssonar frá Ólympíuleikunum í Peking 2008 og er í henni í einu skotinu,“ útskýrir rapparinn.
Í myndbandinu má einnig sjá markadrottninguna Margréti Láru Viðarsdóttur. „Fá landslið hafa gert okkur jafn stolt og kvennalandsiðið í fótbolta. Það var frábært að fá hana inn í þetta með okkur.“ Í myndbandinu má einnig sjá kraftajötna, boxara og keppendur í fitness. Allt fólk í fremstu röð í sinni íþrótt.
Með Erpi í laginu syngur Helgi Sæmundur, meðlimur sveitarinnar Úlfur Úlfur. Erpur er mjög ánægður með framlag Helga í laginu og hrósar honum í hástert.

Í laginu fjallar Erpur um feril sinn sem rappari og bendir á að XXX Rottweilerhundar hafi átt fyrstu rappplötuna sem náði platínusölu. Erpur tekur einnig fram í textanum að Kópakabana, sólóplata hans sem kom út 2010, hafi verið síðasta rappplatan sem náði gullsölu hér á landi.
Viðtökur myndbandsins hafa verið mjög góðar. Fyrsta sólarhringinn á Youtube var horft á það yfir tíu þúsund sinnum. Myndbönd við lög Erps eru gjarnan vinsæl og hefur verið horft á sum þeirra í mörg hundruð þúsund skipti.