Innlent

Ofskynjunarsveppir gera starfsfólki kirkjugarða lífið leitt

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Á hverju ári tínir fjöldi fólks ofskynjunarsveppi í kirkjugörðum á höfuðborgarsvæðinu. Þar þrífast þeir vel þar sem garðarnir eru vel hirtir og slegnir reglulega. Starfsmenn garðanna segja málið hvimleitt og óviðeigandi.

Sveppatínslan á sér jafnvel stað um hábjartan dag og kemur fólk bæði einsamalt og í hópum. Þá koma stundum sömu einstaklingar í kirkjugarðanna ár eftir ár í þessum erindagjörðum.

„Þetta hefur verið á hverju einasta ári í kannski tíu, fimmtán ár. Í tvær til þrjár vikur á hverju hausti þá sjáum við starfsmenn kirkjugarðanna hérna í Reykjavík fólk sem er greinilega hérna í öðrum tilgangi hérna en að vitja leiða eða slíkt. Fólk sem er komið til að týna þessa litlu sveppi,“ segir Þorgeir Adamsson, garðyrkjustjóri kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæmis.

Starfsfólk garðanna hefur haft afskipti af sveppatínslunni og gert lögreglu viðvart eftir atvikum.

„Ég ímynda mér að þetta geti valdið truflun fyrir aðstandendur sem eru að heimsækja leiði og vitja leiða í görðunum. Mér finnst þetta miður og óviðeigandi í alla staði,“ segir Þorgeir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×