Innlent

Óvíst hvort takist að semja við iðnaðarmenn fyrir miðnætti

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Kristján Þórður Snæbjarnarson frá RSÍ, Guðmundur Ragnarsson frá VM og Níels S. Olgeirsson frá Matvís.
Kristján Þórður Snæbjarnarson frá RSÍ, Guðmundur Ragnarsson frá VM og Níels S. Olgeirsson frá Matvís. Vísir/Stefán
„Það miðar en ekki alveg nógu vel. Við erum að taka stöðuna núna,” segir Níels Sigurður Olgeirsson, formaður samninganefndar Matvís en það er eitt þeirra sex stéttarfélaga iðnaðarmanna sem funda í húsakynnum ríkissáttasemjara í dag.

Sameiginlegur fundur stéttarfélaganna hófst klukkan tíu. Félögin sem um ræðir auk Matvæla- og veitingafélags Íslands eru Rafiðnaðarsamband Íslands, Félag hársnyrtisveina, Grafía/FBM, Félag vélstjóra og málmtæknimanna og Samiðn. „Við erum að fara yfir stöðuna núna hvert félag fyrir sig eftir sameiginlega fundinn.”

Níels Sigurður er formaður samninganefndar Matvís.
„Við vonum að við náum að klára,” segir Níels en hann telur fundinn geta staðið til miðnættis ef þarf. Verði ekki samið fyrir þann tíma leggja félagsmenn í fyrrnefndum stéttarfélögum niður störf. Rúmlega tíu þúsund manns eiga aðild að félögunum.

„En við erum að gera allt sem við getum til að klára þetta. Það eru nokkrir póstar sem standa útaf en það eru ekki þungir póstar.”

Níels segir að sátt hafi náðst um ýmis þungavigtaratriði. „Við höfum alltaf verið að mjakast meira og meira í rétta átt.”

Fundahöld halda áfram hjá ríkissáttasemjara í dag.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×