Innlent

Síðasti séns til að semja á morgun

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Sex félög iðnaðarmanna taka þátt í viðræðunum við SA.
Sex félög iðnaðarmanna taka þátt í viðræðunum við SA. vísir/vilhelm
Samningafundi iðnaðarmanna og Samtaka atvinnulífsins lauk hjá ríkissáttasemjara fyrr í kvöld. Sex félög taka þátt í viðræðunum, Félag vélstjóra og málmtæknimanna, Félag hársnyrtisveina, Samiðn, Matvís, Grafía og Rafiðnaðarsamband Íslands. Iðnaðarmenn hafa boðað til verkfalla frá og með miðnætti annað kvöld og er því seinasti séns til að semja á morgun.

Boðað hefur verið til fundar sem hefst um hádegi á morgun en Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambandsins, segir erfitt að segja til um það núna hvort að samningar takist áður en verkfall skellur á.

„Þetta þokast aðeins nær en menn þurfa bara að taka stöðuna á morgun og sjá hvort samningar náist. Það er allavega mjög jákvætt að það er verið að ræða saman og við munum að sjálfsögðu sitja eins lengi og þarf á meðan það er eitthvað til þess að ræða, ég held að það sé alveg augljóst,“ segir Kristján í samtali við Vísi.

Félögin sex setja bæði fram sameiginlegar kröfur og svo sérkröfur sem snúa að hverju félagi fyrir sig í viðræðunum við SA. Kristján segir að á fundinum í dag hafi bæði verið farið yfir sameiginlegu kröfurnar og svo sérmálin. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×