Innlent

Ók yfir heiðina með mat fyrir krakkana

kristjana björg guðbrandsdóttir skrifar
Nemendurnir 57 nutu gestrisni heimamanna í félagsheimilinu á Hólmavík. Þá sultu þau ekki í rútunni þökk sé velgjörðamanni þeirra, Jóni Heiðari Guðjónssyni.
Nemendurnir 57 nutu gestrisni heimamanna í félagsheimilinu á Hólmavík. Þá sultu þau ekki í rútunni þökk sé velgjörðamanni þeirra, Jóni Heiðari Guðjónssyni. Mynd/Jón Halldórsson
„Þegar við hringdum í lögregluna þá vildi hún ekki hætta sínum starfsmönnum út okkur til aðstoðar,“ segir Sigurveig Anna Gunnarsdóttir, einn nemenda Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra, um sautján klukkustunda dvöl í rútu við Djúpveg um nótt.

Rútan sat föst við Djúpveg sem fór í sundur á tveimur stöðum á sunnudag, rétt fyrir sunnan Hólmavík við Skeljavík og í Staðardalnum við gatnamót Djúpvegar og Drangsnesvegar.

„Veðurskilyrði voru svo slæm að þeir neituðu okkur um þessa aðstoð, sumir foreldrar voru ósáttir,“ segir Hugrún Pálsdóttir, samnemandi hennar.

Fleiri en nemendurnir dvöldu í félagsheimilinu. Um 80 ferðalangar voru strand á Hólmavík.
Þar sem nemendurnir dvöldu í rútunni í niðamyrkri fengu þeir þó óvæntan glaðning um miðja nótt. Jón Heiðar Guðjónsson sem starfar við hótelrekstur í Reykjanesi hætti sér yfir Steingrímsfjarðarheiðina til þeirra og kom færandi hendi. Jón Heiðar kom meðal annars með 150 samlokur, súkkulaði og ýmiss konar snarl. Hann vildi ekki tjá sig um málið við blaðamann.

„Við vorum svo þakklát,“ segir Sigurveig Anna. „Eiginlega fá engin orð því lýst. Það var ekkert nálægt okkur. Sjötíu kílómetrar í næsta bæ fyrir aftan okkur.“

Nemendurnir komu til Hólmavíkur klukkan ellefu í gærmorgun og dvöldu í félagsheimilinu þar ásamt fleiri ferðalöngum við gott atlæti á meðan Vegagerðin á Hólmavík vann hörðum höndum að því að gera við veginn.

Segja má að bæjarlækurinn hafi breyst í stórfljót og rifið veginn í sundur.

Bæjarlækurinn breyttist í stórfljót og vegurinn fór í sundur. Bráðabirgðaviðgerð var gerð á veginum.
Sverrir Guðbrandsson, verkstjóri hjá Vegagerðinni, sagði að orsökina væri að finna í stíflu í ræsi.

„Það er langt ræsi sem gengur í gegnum flugbrautina hér. Við mokuðum upp undir þar sem ræsið á að vera. Það er bráðabirgðaaðgerð, svo það sé hægt að aka þessa leið. Svo verður sett upp nýtt ræsi.“

Ungmennin lögðu af stað frá Hólmavík.

„Við fengum samlokur og fleira í hádeginu, fórum í sund og borðuðum heitt lasanja í kvöldmatinn,“ segir Sigurveig Anna frá ánægð með gestrisni bæjarbúa. Og þótt örlað hafi á þreytu í mannskapnum í gærkvöldi mátti heyra fagnaðaróp þegar þau fóru yfir viðgerðan veg á leið heim á Sauðárkrók.

Nemendurnir dvöldu lengi í rútunni en Jón heiðar Guðjónsson gerði þeim lífið léttara og færði þeim mat.

Tengdar fréttir

„Allar ákvarðanir sem teknar voru á vettvangi réttar“

„Þegar við komum þarna þá virkaði þetta ekki eins og mikið fljót fyrir okkur,“ segir rútubílstjórinn Sævar Þorbergsson. Lögregla og björgunarsveitir hafi þó vitað betur og tekið réttar ákvarðanir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×