Innlent

Óvissustigi á landinu aflétt

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Óvissustigi vegna óveðurs hefur verið aflétt á öllu landinu. Ríkislögreglustjóri tók ákvörðun um það í samráði við alla lögreglustjóra landsins. Óvissustigi var lýst yfir í gærmorgun en um tíma í gærkvöldi og nótt var búið að lýsa yfir hættustigi á Suðurlandi og Vestmannaeyjum.

Í tilkynningu frá almannavörnum, sem heyra undir ríkislögreglustjóra, kemur fram að aðgerðir vegna óveðursins í gær hafi gengið vel, þrátt fyrir mikinn veðurham víða. „Aðgerðastjórnir voru virkjaðar í öllum umdæmum landsins og var undirbúningur almennt til fyrirmyndar,“ segir í tilkynningunni.

Almannavarnir segja að ferðaþjónustan hafi upplýst erlenda ferðamenn um veðurspár og að þeir hafi virt tilmæli um að vera ekki á ferðinni. Sama megi segja um almenning sem hafi tekið tilmælum vel og verið komin í hús tímalega fyrir veðrið.

„Þetta leiddi til þess að ekki sköpuðust vandræði á vegum úti þannig að björgunarsveitarmenn gátu einbeitt sér að því að bjarga verðmætum,“ segir í tilkynningu almannavarna. 

„Þetta sýnir að undirbúningur er mikilvægur þegar búast má við ofsaveðri eins og gekk yfir landið gær. Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra vill þakka almenningi, viðbragðsaðilum og öllum þeim sem lögðu sitt af mörkum sem leiddi til að allt gekk stórslysalaust fyrir sig.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×