Innlent

Framkvæmdir við fordæmalaust verk ekki hafnar

Birgir Olgeirsson skrifar
Hafnargarðurinn umdeildi var byggður 1928.
Hafnargarðurinn umdeildi var byggður 1928. Vísir/GVA
Framkvæmdir við hafnargarðinn á Austurbakkanum við Reykjavíkurhöfn eru ekki enn hafnar. Verktakafyrirtækið Landstólpi hyggst reisa þar byggingar og verður hafnargarðurinn hluti af þeim. Þarf fyrirtækið að fjarlægja hafnargarðinn í millitíðinni og koma honum svo upp aftur en fornleifafræðingar og hleðslusérfræðingar munu hafa yfirumsjón með verkinu.

Verður hver steinn merktur og hafnargarðinum raðað upp á nýjan leik síðar á framkvæmdatímanum.

Málið má rekja til þess þegar hafnargarðurinn kom í ljós í vor þegar framkvæmdir við Austurbakka voru skammt á veg komnar. Í ljós komu stærðarinnar skipskrúfur og hafnargarðurinn sem staðið hefur styr um undanfarna mánuði.

Landstólpi vildi fjarlægja garðinn en ríkið ákvað að skyndifriða hann. Upphófust þá deilur á milli ríkis og borgar sem endaði með því að Minjastofnun og Landstólpi náðu samkomulagi um að garðurinn fengi að njóta sín á meðal bygginganna sem á að reisa á Austurbakkanum.

Gísli Steinar Gíslason, forstjóri Landstólpa, segir vinnuna við að fjarlægja hafnargarðinn ekki hafna en það muni gerast á næstu dögum. Hann segir runnið algjörlega blint í sjóinn þegar kemur að tímalengd verksins og kostnaði við það. Þetta sé fordæmalaus aðgerð sem gæti tekið daga eða vikur og mun verða fremur kostnaðarsöm.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×