Lífið

Bubbi hlakkar til að spila á Airwaves

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Bubbi Morthens og Dimma ætla að rokka á Nasa á Iceland Airwaves.
Bubbi Morthens og Dimma ætla að rokka á Nasa á Iceland Airwaves. Vísir/Pjetur
„Þetta leggst mjög vel í mig. Ég hef alltaf fylgst með hátíðinni í gegnum tíðina og spottað hverjir eru að koma,“ segir tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens. Hann kemur í fyrsta sinn fram á Airwaves-hátíðinni sem fram fer 4.-8. nóvember.

Bubbi kemur þar fram ásamt hljómsveitinni Dimmu en þessir miklu rokkarar hafa leitt saman hesta sína undanfarna mánuði. „Ég hef einhvern tímann sagt að kynlíf sé eins og flúðasigling á bíldekki en að spila með Dimmu er eins og flúðasigling nakinn. Þetta band er makalaust, það er geðveikt að spila með þessum strákum,“ segir Bubbi.

Hann og Dimma hafa verið að spila lög Das Kapital og Utangarðsmanna og hafa komið fram á nokkrum tónleikum undanfarna mánuði. „Þetta er mjög rokkpönkað prógramm og svo er metalreggí á milli.“

Tónleikar Bubba og Dimmu fara fram 5. nóvember á Nasa. „Það er virkilegt gaman að spila á Nasa aftur, þetta er frábært hús,“ bætir Bubbi við.

Hann segir undirbúninginn fyrir tónleika með Dimmu vera talsvert öðruvísi en þegar hann stígur einn á svið með kassagítarinn.

„Þetta er crossfit-keyrsla, það er upphitun og teygjur í klukkutíma fyrir tónleika, það er enginn afsláttur. Þetta er líkamsrækt og maður er örmagna eftir tónleikana,“ segir Bubbi. Hann boxar mikið fyrir tónleika til þess að hita sig upp.

„Maður er eins og gamall dísiltrukkur, þegar maður er kominn í gang þá stoppar mann ekki neitt,“ segir Bubbi og hlær.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×