Innlent

Bjóða upp á hinsegin fræðslu í MH í kvöld

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Katrín Sigríður Steingrímsdóttir, nemandi í MH og jafningjafræðari hjá Samtökunum 78.
Katrín Sigríður Steingrímsdóttir, nemandi í MH og jafningjafræðari hjá Samtökunum 78. mynd/facebook
Katrín Sigríður Steingrímsdóttir og Andrea Dagbjört Pálsdóttir munu í kvöld standa fyrir hinsegin fræðslu í Norðurkjallara Menntaskólans við Hamrahlíð. Fræðslukvöldið er hluti af Hinsegin viku sem nú stendur yfir í skólanum.

„Við erum báðar nemendur í MH og höfum starfað sem jafningjafræðarar hjá Samtökunum 78,“ segir Katrín í samtali við Vísi sem einnig er í listaráði skólans sem stendur að Hinsegin vikunni.

Hinsegin vika er nú haldin í fyrsta skipti í MH og segir Katrín að hún mælist vel fyrir.

„Nemendur hafa almennt tekið vel í þetta, við höfum að minnsta kosti ekki fengið neinar athugasemdir. Tilgangurinn með viku er í raun að fræða því það er margt sem fólk veit ekki og vill læra um.“

Á fræðslukvöldinu ætla hún og Andrea að fjalla um allt milli himins og jarðar.

„Kvöldið er opið nemendum, foreldrum og starfsfólki og mér sýnist mikill áhugi vera fyrir því. Við höfum meðal annars heyrt af kennurum sem ætla að koma.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.