Innlent

Fljúgandi trampólín geta reynst lífshættuleg

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Vigdís Björk Agnarsdóttir, formaður Björgunarsveitar Hafnarfjarðar, segir að nóttin hafi verið sannkölluð trampólín nótt. Mikill erill var hjá lögreglu og björgunarsveitum á höfuðborgarsvæðinu þar sem lausamunir fóru á flug í storminum sem gekk yfir suðvesturhorn landsins.

„Við sáum trampólín sem voru vafin utan um skorstein, vafin utan um staura, uppi í tré, það var líka mikið um brotin tré. Það er auðvitað ýmislegt sem fólk getur gert til að þetta sé ekki svona af því að töluvert af því sem við vorum að gera í nótt er eitthvað sem við ættum ekki að þurfa að vera að gera. Fólk á að geta gert þetta sjálft, eins og til dæmis að festa ruslatönnur. Það var mikið af ruslatunnum sem voru að fjúka út á götu og yfir á lóðir og utan í bíla. Og svo eru það auðvitað þessi trampólín.“

„Manndrápstæki ef þetta kemur á fleygiferð á þig“

Vigdís segir að fólk átti sig ekki endilega á hættunni sem fljúgandi trampólíni fylgir.

„Þetta er ekki bara það að trampólínið fari af stað og lendi í garðinum hjá manni. Við erum bókstaflega að tala um það að trampólín takast á loft og þau fljúga bara eins og frisbídiskur af stærstu gerð. Þetta er stórhættulegt ef þetta fer af stað. Við viljum ekki lenda í því að fá okkur fjúkandi trampólín því það yrði lítið eftir af okkur ef það myndi brotlenda á okkur.“

Stærstu trampólín eru nokkrir metrar í þvermál.

„Þetta eru bara manndrápstæki ef þetta kemur á fleygiferð á þig,“ segir Vigdís.

Einnig fuku stillansar, þakkantar og plötur, ferðavagnar og skjólveggir í veðrinu, sem er fyrsta haustlaugðin í ár. Á þremur stöðum féllu tré á götur og lokuðu þeim; við Strandgötu í Hafnarfirði, Hlíðarveg í Kópavogi og Höfðabakka í Reykjavík.


Tengdar fréttir

Staðráðin í að redda nýju tjaldi fyrir Októberfest

Októberfest Stúdentaráðs Háskóla Íslands (SHÍ) hefst á morgun en babb kom í bátinn í nótt þegar risatjald sem sett hafði verið upp tókst á loft í storminum sem geisaði á höfuðborgarsvæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×