Fótbolti

„Verðum að notfæra okkur að pressan er á þá“

Kolbeinn Tumi Daðason og Óskar Ófeigur Jónsson skrifa
Birkir Bjarnason hefur verið að spila vel með Basel á tímabilinu.
Birkir Bjarnason hefur verið að spila vel með Basel á tímabilinu. Vísir/Getty
Birkir Bjarnason, hárprúði kantmaður landsliðsins, segir að á góðum degi geti okkar menn lagt hvaða þjóð sem er að velli. Pressan sé á Hollendingum fyrir leikinn á fimmtudag í A-riðli undankeppni EM 2016.

Birkir ræddi við blaðamann Vísis að lokinni æfingu landsliðsins í grenjandi rigningu í Amsterdam í dag. Hann segir ljóst að leikurinn sé afar þýðingarmikill upp á framhaldið.

Eitt stig væri frábær úrslit

„Ég ætla ekki að segja að við eigum að geta klárað þennan leik,“ sagði Birkir. „Við getum samt unnið hvern sem er, eitt stig væri frábær úrslit og meira framar vonum.“

Íslenska liðið vann frábæran 2-0 sigur á þeim appelsínugulu í fyrri leiknum á Laugardalsvelli fyrir tæpu ári. Gylfi Þór Sigurðsson skoraði bæði mörkin í leik sem okkar menn útfærðu af mikilli fagmennsku.

„Við spiluðum alveg gríðarlega vel, sérstaklega varnarlega, og lokuðum rosalega vel á þá. Við verðum að fara í þennan leik á sama hátt. Þeir eru á heimavelli og með pressuna á sér.“

Allt reyndir leikmenn

Birkir telur að breytingar á þjálfarateymi Hollendinga og þá mögulega á byrjunarliði og taktík muni ekki breyta miklu. Valinn maður sé í hverju rúmi hjá gestgjöfunum.

„Þetta eru allt mjög reyndir leikmenn og vita hvað þeir þurfa að gera. Við verðum að notafæra okkur að pressan er á þá og spila á okkar styrkleikum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×