Lífið

Kaupfíknin fyllti tómarúm: „Þurfti að kaupa eitthvað nýtt á hverjum degi“

Jóhann Óli Eiðsson og Ásgeir Erlendsson skrifa
„Þú þjáist af kaupfíkn ef þér líður illa og þú verslar hluti til að fylla upp í eitthvað tómarúm sem býr innra með þér,“ segir Lína Birgitta Camilla Sigurðardóttir en hún var gestur Ásgeirs Erlendssonar í Íslandi í dag.

Lína opnaði sig fyrr í sumar við DV um baráttu sína við kaupfíkn en eftir að hafa barist við hana lengi ákvað hún að leita sér hjálpar hjá sálfræðingi til að ná stjórn á henni.

„Þetta var orðið þannig að ég þurfti að koma heim með poka á hverjum einasta degi því annars leið mér eins og það vantaði eitthvað í líf mitt,“ segir hún.

Ef hún keypti ekki bol, buxur, kjól eða skó þá dugði henni þann daginn að koma við í IKEA og kaupa rúmföt. Ástandið var orðið slíkt að hún hafði sér rúm undir dót sem hún hafði keypt og ekki notað en fataherbergið hennar var yfirfullt. Hún var einnig byrjuð að fela pokana og ljúga til um verð á vörum sem hún keypti. Á endanum ýtti móðir hennar henni til sálfræðings og í meðferð.

Skilaboð hennar til þeirra sem gætu glímt við sama kvilla eru einföld. „Ef þú ert að versla til að fylla eitthvað tómarúm þá farðu til sálfræðings og leitaðu þér aðstoðar,“ segir Lína.

Innslagið úr Íslandi í dag má sjá hér fyrir ofan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×