Innlent

Sex hundruð vilja að lífi kópsins sé þyrmt: Ekki ráðlagt að halda kóp heima hjá sér

Birgir Olgeirsson skrifar

Rúmlega sex hundruð manns vilja þyrma lífi selkópsins sem slapp úr Húsdýragarðinum um liðna helgi. Kópurinn fannst á tjaldstæðinu í Laugardal og var handsamaður af lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu sem kom honum aftur í garðinn.

Haft var eftir Hilmari Össurarsyni dýrahirði í kvöldfréttum Stöðvar 2 að urtan, móðir kópsins, muni stugga við honum og í ljósi aðstöðuleysis muni kópurinn hljóta sömu örlög og önnur gæludýr sem ekki er pláss fyrir í heiminum.

Sagðar hafa verið fréttir af því að kópum húsdýragarðsins sé lógað við enda sumarsins vegna plássleysis og refirnir í húsdýragarðinum fóðraðir með kjötinu.

650 vilja að kópurinn lifi

Nú hafa 650 manns líkað við Facebook-síðu þegar þetta er skrifað þar sem skorað er á forsvarsmenn húsdýragarðsins að þyrma lífi sprettharða selkópsins en forstöðumaður Fjölskyldu- og Húsdýragarðsins, Tómas Óskar Guðjónsson, segir það sama gilda um kópana og önnur dýr í garðinum. Málið sé í höndum yfirdýrahirðis og dýrahirða sem ákveða hvaða dýr fá að vera áfram í garðinum og hver ekki.

„Þeir fara bara yfir þá hluti og athuga hvernig staðan er í hverjum hópnum fyrir sig. Það er gangurinn í þessu hjá okkur.“

Selirnir orðnir gamlir

Hann segir ekki ráðlagt að halda kóp heima hjá sér en það sé alltaf einhver möguleiki til að halda dýrunum á lífi. „Eins og við gerðum með yrðlingana hjá okkur. Við sendum þá til Noregs og Svíþjóðar. Síðar er alltaf eitthvað sem þarf að leysa af. Þessir selir eru komnir til ára sinna og það er spurning hvenær þeir fara að deyja náttúrulegum dauðdaga. Þeir eru orðnir 26 og 27 ára gamlir. Síðan getum við svo sem ekki endilega heldur bætt í laugina. Það þarf heldur að fækka í henni þannig að hvert og eitt dýr hafi meira rými.“

Málið sé þó engu að síður í höndum dýrahirðanna. „Þetta er eflaust sprottið af góðum hvötum hjá fólki og það ber að virða líka hlýhug hjá fólki þegar því er umhugað um dýrin. En þetta er staðan hjá okkur að svona tökum við ákvarðanir í garðinum. Það er farið bara yfir málin af yfirdýrahirðinum og dýrahirðum og þeir hafa þetta hlutverk.“


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×