Enski boltinn

Mourinho: Stjórar þurfa ekkert að takast í hendur vilji þeir það ekki

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jose Mourinho og Arsene Wenger.
Jose Mourinho og Arsene Wenger. Vísir/EPA
Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea, var auðvitað spurður út í samskipti sín og Arsene Wenger, knattspyrnustjóra Arsenal í kringum leikinn um Samfélagsskjöldinn um síðustu helgi.

Jose Mourinho og Arsene Wenger eru ekki miklir vinir og það fer ekkert framhjá neinum. Mourinho óskaði meðal annars öllum leikmönnum Arsenal til hamingju með sigurinn en strunsaði síðan framhjá Wenger þegar hann kom síðastur niður tröppurnar.

„Ég vil ekki gera mál úr þessu en ef þú ert að ganga eftir götu þá ertu ekkert skuldbundinn því að segja halló eða taka í höndina á öllum sem þú mætir," sagði Jose Mourinho.

„Ég veit samt að þegar þú kemur fram fyrir hönd félags eða fótboltastofnunnar þá er þetta aðeins öðruvísi," sagði Mourinho.

„Í leiknum um Samfélagsskjöldinn þá hugsaði ég um mitt félag, leikstaðinn, Wembley og alla söguna sem honum fylgir. Wembley er síðasti staðurinn í sögu fótboltans sem þú vilt haga þér illa. Það er samt mín skoðun að knattspyrnustjórar þurfa ekkert að takast í hendur vilji þeir það ekki," sagði Mourinho.

Arsene Wenger fagnaði sigri í fyrsta sinn á móti Jose Mourinho í umræddum leik en það eru margir á því að Arsenal verði höfuðandstæðingur Chelsea í vetur í baráttunni um Englandsmeistaratitilinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×