Enski boltinn

Richards nýr fyrirliði Aston Villa

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Richards verður í lykilhlutverki hjá Aston Villa í vetur.
Richards verður í lykilhlutverki hjá Aston Villa í vetur. vísir/getty
Micah Richards hefur verið skipaður fyrirliði Aston Villa þrátt fyrir að hafa aldrei spilað keppnisleik fyrir félagið.

Richards kom til Villa frá Manchester City í sumar og Tim Sherwood, knattspyrnustjóri Villa, virðist hafa mikla trú á þessum sterka varnarmanni sem var á sínum tíma ein af vonarstjörnum enska landsliðsins.

„Micah Richards verður fyrirliði okkar inni á vellinum. Við höldum að hann sé rétti maðurinn til að leiða liðið. Hann er duglegur að láta í sér heyra og gengur fram með góðu fordæmi,“ sagði Sherwood um nýja fyrirliðann sinn sem tekur við bandinu af Fabian Delph sem er farinn til Manchester City.

„Hann kemur með sigurhugsun inn í liðið. Það tekur tíma að innleiða hana og það verða allir að vera móttækilegir.“

Richards, sem hefur leikið sem miðvörður á undirbúningstímabilinu, leiðir sína menn út á Dean Court á laugardaginn þegar Villa sækir Bournemouth heim í 1. umferð ensku úrvalsdeildarinnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×