Enski boltinn

Ökkli Wilshere gaf sig einu sinni enn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jack Wilshere.
Jack Wilshere. Vísir/EPA
Jack Wilshere missir af fyrstu mánuðum tímabilsins en miðjumaður Arsenal meiddist á ökkla eftir harða tæklingu á æfingu fyrir leikinn um Samfélagsskjöldinn um síðustu helgi.

Wilshere hefur verið mikið frá vegna meiðsla undanfarin ár og er mjög veikur fyrir í ökklanum.

Það kom enn á ný í ljós á umræddri æfingu þegar hann var tæklaður á síðustu æfingunni fyrir fyrsta keppnisleik tímabilsins. Höggið var það mikið að Wilshere fékk sprungu í bein í hægri ökkla.

Óstaðfestar fréttir herma að það hafi verið brasilíski varnarmaðurinn Gabriel sem hafi tæklað Wilshere á æfingunni með þessum afdrifaríku afleiðingum fyrir þennan 23 ára óheppna leikmann.

Arsène Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, hafði ekki áhyggjur og bjóst við að Wilshere yrði frá í nokkra daga en annað hefur síðan komið í ljós.

Wilshere sleppur reyndar við það að fara í aðgerð vegna meiðslanna en hann þarf að hvíla í sex til átta vikur.

Það er líklegt að Arsenal fari einnig varlega í að henda honum aftur inn í alvörunum vitandi langa meiðslasögu leikmannsins.

Wilshere var frá í tæpa sex mánuði á síðasta tímabili eftir að hafa meiðst á ökkla í leik á móti Manchester United í nóvember.  Undanfarin ár hafa ítrekuð meiðsli kostað Wilshere ófáa leikina og á sama tíma hefur hann ekki náð að verða jafn öflugur leikmaður og leit út fyrir á hans yngri árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×