Lífið

Ungliðahreyfingar stjórnmálaflokka taka þátt í Gleðigöngunni

Atli Ísleifsson skrifar
Ungliðahreyfingar þeirra stjórnmálaflokka  sem sæti eiga á Alþingi munu taka þátt í Gleðigöngunni á morgun. Þetta er í fyrsta sinn í sögu göngunnar sem pólitískar ungliðahreyfingar taka þátt.

Í sameiginlegri tilkynningu frá ungliðahreyfingunum segir að þáttaka pólitískra ungliðahreyfinga hafi þekkst víða í löndunum í kringum okkur en ekki tíðkast hér á landi þar til nú.

„Með þáttöku okkar viljum við sýna að þó við nálgumst málin með mismunandi hætti og höfum ólíkar pólitískar áherslur þá erum við öll sammála um mannréttindi hinsegin fólks. Þá viljum við vekja athygli á því að mannréttindi hinsegin fólks eru verkefni stjórnmálanna og stjórnmálamenn mega ekki sofna á verðinum þegar kemur að þessum málaflokki.

Það er ekki á hverjum degi sem allar ungliðahreyfingarnar gera eitthvað saman en það er okkur mikið gleðiefni að geta sameinast um svo mikilvægt málefni. Einu sinni er allt fyrst og við vonumst til að geta tekið þátt í Gleðigöngunni á hverju ári. Hreyfingarnar munu ganga saman, þó hver undir sínum eigin formerkjum og slagorðum. Sem kunnugt er fer gangan fram á morgun, laugardag, klukkan 14:00.“

Undir yfirlýsinguna rita Ungir jafnaðarmenn, Ungir sjálfstæðismenn, Ung vinstri græn, Ungir píratar og Samband ungra framsóknarmanna.

Uppfært 13:35:

Í tilkynningu frá Bjartri framtíð segir að þó að flokkurinn sé ekki með sérstaka ungliðadeild þá mun ungt fólk ur flokknum einnig taka þátt í göngunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×