Enski boltinn

Di Maria biður stuðningsmenn United afsökunar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Táknræn mynd fyrir tíma Angel Di Maria á Old Trafford.
Táknræn mynd fyrir tíma Angel Di Maria á Old Trafford. Vísir/Getty
Argentínumaðurinn Angel Di Maria er nú orðinn leikmaður Paris Saint Germain en hann ákvað að skrifa opið bréf til stuðningsmanna Manchester United nú þegar hann kveður félagið eftir aðeins eins árs veru á Old Trafford.

Manchester United keypti Angel Di Maria á næstum því 60 milljónir punda frá Real Madrid fyrir einu ári en hann varð ekki sá lykilmaður sem stuðningsmenn United vonuðust til. United fékk ekki nærri því eins mikið fyrir leikmanninn aðeins tólf mánuðum síðar.

„Ég skrifa þetta bréf til að þakka allri Manchester United fjölskyldunni fyrir þann frábæra stuðning sem ég fékk á þessu ári mínu hjá félaginu," skrifaði Angel Di Maria.

„Ég geri mér vel grein fyrir því að hlutirnir gengu ekki eins vel og við bjuggumst öll við og ég er mjög leiður yfir því," skrifaði Di Maria.

„Ég fullvissa ykkur um það að ástæðan var ekki sú að ég reyndi ekki. Ég gerði mitt besta en fótboltinn er ekki eins og stærðfræði. Oftast gerast hlutir sem þú hefur enga stjórn á og þeir ráða því hvernig þetta fer," skrifar Di Maria.

„Ég bið ykkur afsökunar að hafa ekki staðið undir væntingum og ekki náð að standa mig betur hjá þessum stórkostlega klúbbi," endaði þessi 27 ára gamli Argentínumaður bréfið sitt.

Angel Di Maria var með 3 mörk og 11 stoðsendingar í 27 leikjum í ensku úrvalsdeildinni. Hann byrjaði vel og var með 3 mörk og 6 stoðsendingar í fyrstu tíu leikjunum sínum en eftir að hann meiddist aftan í læri í nóvember gekk lítið upp hjá honum.

Angel Di Maria kynntur sem leikmaður PSG.Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×