Innlent

„Ekki séns í helvíti, Björn Ingi Hrafnsson“

Jakob Bjarnar skrifar
Björn Þorláksson telur nafna sinn Inga Hrafnsson ekki hafa almannahagsmuni að leiðarljósi, heldur hreina og klára sérhagsmuni.
Björn Þorláksson telur nafna sinn Inga Hrafnsson ekki hafa almannahagsmuni að leiðarljósi, heldur hreina og klára sérhagsmuni.
Björn Þorláksson, fyrrverandi ritstjóri Akureyri Vikublaðs, segir ekki koma til greina, fyrir sitt leyti, að starfa fyrir Björn Inga Hrafnsson útgefanda.

Eins og Vísir hefur greint skilmerkilega frá urðu talsverðar vendingar í útgáfustarfsemi fjölmiðla um helgina. Ámundi Ámundason seldi VefPressunni útgáfu sína sem meðal annars hefur gefið út Reykjavík Vikublað og Akureyri Vikublað. Sjálfur réði Ámundi sig til starfa hjá VefPressunni og Birni Inga, útgefanda.

Björn Þorláksson greinir sjálfur frá því sem hann sagði í viðtalinu við þá Frosta Logason og Mána Pétursson og birtir vinum sínum á Facebook. „Þá liggur það fyrir, kæru vinir. Var í viðtali á Harmageddon áðan og var spurður hvort ég mynd dansa við Binga ef hann byði mér ritstjórastöðu við það sem hann heldur að verði áfram hægt að kalla Akureyri vikublað en var blaðið okkar, okkur hefur verið sagt upp og hann er ekki með neina vöru lengur að selja.“

Svar Björns er afgerandi, en hann segist hafa hugsað málið í tvær nætur?

„Svar mitt á Harmageddon eftir að hafa hugsað málið í tvær nætur: „Ekki séns í helvíti“ Björn Ingi Hrafnsson.“

Og Björn Þorláksson útskýrir hvers vegna ekki komi til greina að starfa fyrir nafna sinn Björn Inga:

„Ég gæti aldrei átt trúnað við þig, því ég trúi ekki að þú hafir trúnað við almannahagsmuni að leiðarljósi með þinni útgáfustarfsemi. Held að þín áhersla sé á hreina sérhagsmuni. Sjálfstæðir og reyndir blaðamenn eru ekki skógarþrastarungar sem bíða með opinn gogginn eftir þínum peningum, sem enginn veit hvaðan koma. Lifi frelsið og gagnrýnin upplýsing. Netið færðu seint keypt upp!“

Það vekur svo athygli að fjölmargir fjölmiðlamenn hafa „lækað“ þessi afdráttarlausu ummæli Björns um útgefandann nafna sinn, sem má þá heita til marks um að Björn Ingi sé verulega umdeildur innan þess geira sem hann starfar.

Björn Ingi Hrafnsson vill ekki veita Vísi viðtal sem stendur, vegna þessara væringa og sviptinga á fjölmiðlamarkaði. Hann segist pollrólegur í fríi í útlöndum og veiti ekki viðtöl sem stendur.

Þá liggur það fyrir, kæru vinir. Var í viðtali á Harmageddon áðan og var spurður hvort ég myndi dansa við Binga ef hann...

Posted by Björn Þorláksson on 27. júlí 2015

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×