Lífið

Bill Gates skoðaði Gullfoss og fór í nætursund í Bláa lóninu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Bill og Melinda Gates stíga inn í Mercedes Benz við Gullfoss á föstudag.
Bill og Melinda Gates stíga inn í Mercedes Benz við Gullfoss á föstudag. Vísir

Bandaríski auðjöfurinn Bill Gates hefur farið um víðan völl í heimsókn sinni til landsins. Gates er staddur hér á landi ásamt fríðu föruneyti og má þar meðal annars nefna eiginkonuna Melindu Gates. Vísir greindi fyrst frá væntanlegri komu Gates til landsins fyrir tveimur vikum.

Gates mætti til landsins fyrir helgi og skoðaði Gullfoss á föstudaginn á för sinni um Suðurlandið. Hópurinn ók um á glæsilegum Mercedes Benz V-Class. Síðar um kvöldið sótti Gates svo hestasýningu sem sett var sérstaklega upp fyrir fjölskylduna á Friðheimum í Reykholti í Biskupstungum.

Bill og Melinda Gates á leið upp í bíl eftir að hafa virt Gullfoss fyrir sér. Vísir

Um helgina skellti Gates sér svo í Bláa Lónið að loknum auglýstum opnunartíma. Nokkuð algengt er að vel stæðir einstaklingar leigi lónið út fyrir sig og sína þegar á að gera sér glaðan dag. Naut Bill Gates sín í rökkrinu í lóninu ásamt fjölskyldu sinni.

Gates, sem er ríkasti maður heims samkvæmt nýjustu úttekt Forbes, heldur til í The Trophy Lodge sumarbústaðnum í Úthlíð á meðan á veru hans hér á landi stendur. Bústaðurinn er í eigu Jóhannesar Stefánssonar, veitingamanns og eiganda Múlakaffis. Parið Jay-Z og Beyonce dvöldu þar í desember síðastliðnum. Þau heimsóttu líka Bláa lónið en gerðu það reyndar að degi til.

Trophy Lodge í desember síðastliðnum þegar Beyonce og Jay-Z sóttu landið heim. Vísir/Ernir

Bústaðurinn er skreyttur með höfðum hinna og þessara dýra en þaðan mun nafnið Trophy Lodge vera komið. 

Samkvæmt heimildum Vísis hefur ýmsu verið tjaldað til hvað varðar mat og drykk í bústaðnum en umstangið þykir einmitt svipa til þess þegar Beyonce og Jay-Z dvöldu hér á landi. Notast hefur verið við þyrlu vegna heimsóknar Gates hjónanna en Beyonce og Jay-Z gerðu slíkt hið sama í heimsókn sinni.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.