Innlent

Sögulegir samningar undirritaðir á Patreksfirði

Stefán Ó. Jónsson skrifar
MYND/PÁLL VILHJÁLMSON
Samstarfssamningar á milli Héraðssambandsins Hrafna-Flóka (HHF) og sveitarfélaganna Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps annars vegar og HHF og sex af stærstu fyrirtækjunum á sunnanverðum Vestfjörðum hins vegar voru undirritaðir í gær í Fjölval á Patreksfirði. Fyrirtækin sem um ræðir eru Oddi hf Patreksfirði, Þórsberg ehf. Tálknafirði, Landsbankinn Patreksfirði, Arnarlax ehf. Bíldudal, Fjarðalax ehf. og Íslenska Kalkþörungafélagið ehf. Bíldudal.

Aðdragandi samninganna er sá að í febrúar árið 2014 var haldinn stefnumótunarfundur að tilstuðlan HHF í samstarfi við Vesturbyggð og Tálknafjarðarhrepp. Á fundinum var staða íþrótta- og æskulýðsmála á svæðinu greind; farið var yfir styrkleika og veikleika, ógnanir og tækifæri. Einnig var farið yfir hvernig væri hægt að bæta stöðuna og að lokum voru niðurstöðurnar dregnar saman og nokkur atriði sett sem forgangsverkefni.

Efst á þessum forgangslista var að fá starfsmann, íþróttafulltrúa á sunnanverðum Vestfjörðum, sem ynni bæði fyrir HHF og sveitarfélögin. Páll Vilhjálmsson var ráðinn til verksins. Annað atriði á forgangslistanum var að fá styrk frá bæði sveitafélögum og fyrirtækjum á svæðinu ásamt því að auka jákvæðni á svæðinu gagnvart starfseminni.

Samningarnir sem undirritaðir voru í gær eru í samræmi við yfirlýst markmið samstarfsaðila HHF um að styrkja það mikilvæga æskulýðs- og íþróttastarfs sem HHF vinnur að meðal barna og unglinga á sambandssvæði sínu.

Á fundinum í gær tóku til máls Lilja Sigurðardóttir, formaður HHF, Valdimar Gunnarsson, Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri í Vesturbyggð, Indriði Indriðason sveitastjóri Tálknafjarðarhrepps og Einar Sveinn Ólafsson framkvæmdastjóri Ískalk.

Lýstu þau yfir ánægju sinni með að samstarfssamningar væru undirritaðir og undirstrikuðu mikilvægi þeirra fyrir æskulýðs- og íþróttastarf í héraðinu.

MYND/PÁLL VILHJÁLMSSON



Fleiri fréttir

Sjá meira


×