Innlent

Bongóblíða á landsleiknum og við frelsun geirvörtunnar

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Svona er veðurspáin fyrir landsleikinn gegn Tékkum.
Svona er veðurspáin fyrir landsleikinn gegn Tékkum.
Það mun viðra vel á landsleik Íslands og Tékklands annað kvöld sem og á laugardaginn þegar geirvörturnar verða frelsaðar á Austurvelli ef marka má veðurspá Veðurstofu Íslands.

Gríðarleg spenna er fyrir landsleiknum sem hefst klukkan 18:45 á Laugardalsvelli á morgun. Uppselt er á völlinn og má búast við mikilli stemningu enda um gríðarlega mikilvægan leik að ræða.

Veðurguðirnir ætla að vera með Íslendingum í liði því annað kvöld klukkan 19 er spáð heiðskíru veðri, 10 stiga hita og hægum austanvindi.

Á laugardag er svo búið að efna til brjóstabyltingar á Austurvelli undir merkjum #FreeTheNipple. Frelsun geirvörtunnar hefst klukkan 13 og má búast við bongóblíðu. Spáin er svipuð og fyrir föstudagskvöldið: heiðskírt veður, 11 stiga hiti og hægur vindur.

Veðurhorfur á landinu næstu daga:

Á laugardag:

Norðvestlæg eða breytileg átt, 3-8 metrar á sekúndu og þurrt og bjart að mestu, en heldur hvassara austanlands, skýjað og dálítil væta. Hiti 7 til 14 stig, hlýjast sunnanlands.

Á sunnudag:

Hægviðri og víða léttskýjað. Hiti 10 til 17 stig, hlýjast á Norðausturlandi.

Á mánudag:

Sunnan og suðaustan 5-10 metrar á sekúndu og rigning eða súld um landið sunnan- og vestanvert og hiti 8 til 12 stig, en skýjað með köflum eða bjartviðri fyrir norðan og norðaustan og hiti 10 til 17 stig. 

Sjá nánar á veðurvef Vísis.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×