Innlent

Hlýindaskeið enn í hafinu við Ísland

Kristján Már Unnarsson skrifar
Áhyggjur um að kuldaskeið sé gengið í garð í hafinu við Ísland eru ótímabærar. Hafrannsóknastofnun telur eftir nýjasta vorleiðangur að ennþá ríki hlýsjávarástand á fiskimiðunum. Þetta kom fram í viðtali við Jóhann Sigurjónsson, forstjóra Hafrannsóknastofnunar, í fréttum Stöðvar 2.

Segja má að bæði slæmar og góðar fréttir hafi verið kynntar af hitastigi sjávar á fréttamannafundi Hafrannsóknastofnunar í liðinni viku. Vondu fréttirnar eru stór kuldapollur sem mælist suður og suðvestur af landinu þar sem yfirborðshiti í maí mældist einni til tveimur gráðum undir meðaltali síðustu þrjátíu ára. Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að úti fyrir öllu Norðurlandi mældist hiti um hálfri gráðu yfir meðaltali og út af norðaustur- og Austurlandi mældist hitinn einni til tveimur gráðum yfir meðaltalinu.

Hafrannsóknaskipið Bjarni Sæmundsson.Vísir/Pjetur.
Jóhann Sigurjónsson segir að kuldinn í hafinu suðvestur af landinu sé visst áhyggjuefni en engu að síður telji stofnunin að enn sé hlýsjávarástand í hafinu við Ísland, eins og verið hafi síðustu tuttugu ár, og eins og varði á tímabilinu 1920 til 1964. Síðan hefði komið kuldaskeið og hafísár með mjög köldu árferði.

„Við teljum ennþá að við séum í þessu hlýsjávarástandi,“ segir Jóhann en tekur þó fram að það gæti breyst fyrr eða síðar og sagan segi að það muni kólna. 

Þótt kuldapollur sé suðsuðvestur af landinu gildir annað um hafið norðan og austan af landinu. Þar er hlýrra, samkvæmt mælingum í vorleiðangri Hafrannsóknastofnunar. Jóhann segir mikilvægt að halda uppi öflugum rannsóknum á þessu til að við skiljum okkar nánasta umhverfi og hvaða áhrif það hafi á okkar mikilvægustu nytjastofna.


Tengdar fréttir

Ískalt haf og enginn makríll

Hitastig sjávar við Ísland hefur ekki verið lægra síðan 1997, samkvæmt mælingum Hafró. Áta er undir meðallagi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×