Innlent

Þorskkvótinn ekki meiri síðan um aldamót

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Hafró leggur til að þorskkvótinn verði aukinn úr 216 þúsund tonnum í 239 þúsund tonn.
Hafró leggur til að þorskkvótinn verði aukinn úr 216 þúsund tonnum í 239 þúsund tonn. vísir/stefán
Hafrannsóknastofnun kynnti í dag skýrslu sína um nytjastofna sjávar við Íslandsstrendur og aflahorfur fyrir fiskveiðiárið 2015/2016.

Í skýrslunni er lagt til að þorskkvótinn verði aukinn úr 216 þúsund tonnum, sem var aflamark yfirstandandi fiskveiðiárs, í 239 þúsund tonn.

Fram kemur að viðmiðunarstofninn í byrjun þessa árs hafi verið metinn 1302 þúsund tonn og hrygningarstofninn 547 þúsund tonn. Viðmiðunarstofninn hefur stækkað um meira en 50% frá árinu 2007 og metur Hafrannsóknarstofnun hann nú stærri en hann hefur verið undanfarna þrjá áratugi. Þá er hrygningarstofninn meira en tvöfalt stærri en hann var lengst af síðustu áratugina.

Þá er ýsukvótinn aukinn um sex þúsund tonn, fer úr rúmlega 30 þúsund tonnum í rúm 36 þúsund tonn. Ekki liggur fyrir endanlegur kvóti fyrir loðnu en upphaflegt aflamark, sem tekur mið af nýrri aflareglu, verður 54 þúsund tonn.

Mælingar munu fara fram á loðnustofninum í haust og verður aflamarkið þá endurskoðað. Endanlegur kvóti fyrir fiskveiðiárið mun þó ekki liggja fyrir fyrr en eftir aðra mælingu í upphafi næsta árs.

Í skýrslunni er ekki að finna neinn kvóta fyrir hvali, hvorki hrefnur né langreyðar. Í umfjöllun um ástand þessara nytjastofna kemur fram að vísindalegum úttektum á þeim ljúki í haust og telur Hafrannsóknarstofnun því rétt að byggja veiðiráðgjöf fyrir árið 2016 á þeim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×