Innlent

Styttan af Ingibjörgu H. Bjarnason afhjúpuð

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Styttan af Ingibjörgu H. Bjarnason stendur við Skála Alþingis.
Styttan af Ingibjörgu H. Bjarnason stendur við Skála Alþingis.
Í dag var afhjúpuð stytta af Ingibjörgu H. Bjarnason, fyrstu konunni sem kjörin var til setu á Alþingi, en styttan stendur við Skála Alþingis. Ingibjörg var kjörin af kvennalista árið 1922, sjö árum eftir að konur hlutu kosningarétt og kjörgengi til Alþingis. Styttan af Ingibjörgu er fyrsta heila höggmyndin af nafngreindri konu í Reykjavík.

Ingibjörg var öflugur málsvari kvenna og kvennasamtaka á þingi. Hún barðist ötullega fyrir velferðarmálum og réttindum kvenna, barna og ekki síst þeirra sem höllum fæti stóðu í samfélaginu. Ingibjörg sat á Alþingi í átta ár, eina konan í hópi karlanna.

Höggmyndin af Ingibjörgu er eftir Ragnhildi Stefánsdóttur, myndhöggvara. Ragnhildur er fædd árið 1958, stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1977 – 1981 og hlaut MFA-gráðu frá Carnegie Mellon University, College of Fine Art í Pittsburgh í Bandaríkjunum, þar sem hún var við nám 1986 – 1988.

Styttan er steypt í brons á bronsverkstæðinu Kollinger í Elchingen í Þýskalandi. BM Vallá steypti stöpulinn og Þór Sigmundsson steinsmiður hjá Steinkompaníinu gerði steininn sem gengur upp úr stöplinum.

Eftirtaldir aðilar gefa höggmyndina af fyrstu konunni sem settist á Alþingi í tilefni dagsins:

Arion banki, Landsbankinn, Íslandsbanki, MP banki, Seðlabankinn, Valitor, Borgun, Eimskip, BM Vallá og Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi.Uppfært kl. 20:25:
Í upphaflegri útgáfu þessarar fréttar láðist að geta þess var styttan sjálf var steypt. Því hefur nú verið bætt við fréttina.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.