Enski boltinn

Martraðardvöl Sinclair hjá Man City lokið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sinclair var á sínum tíma á mála hjá Chelsea.
Sinclair var á sínum tíma á mála hjá Chelsea. vísir/getty
Scott Sinclair hefur skrifað undir fjögurra ára samning við Aston Villa. Hann kemur frá Manchester City en kaupverðið er 2,5 milljónir punda.

Þar með lýkur martraðardvöl Sinclairs hjá City en hann spilaði aðeins 19 leiki með liðinu á þremur árum eftir að hafa komið frá Swansea fyrir 7,8 milljónir punda í lok ágúst 2012.

Sinclair spilaði sem lánsmaður með Aston Villa seinni hluta tímabilsins en nú er ljóst að hann verður áfram hjá liðinu sem bjargaði sér frá falli í B-deild með góðum endaspretti.

„Ég er himinlifandi,“ sagði Sinclair í samtali við heimasíðu Aston Villa eftir að félagaskiptin voru klár.

„Við höfum átt frábæran endasprett og ég er þegar farinn að hlakka til næsta tímabils.“

Tímabilið í ár þó ekki enn búið því Villa á eftir leik gegn Burnley í lokaumferð úrvalsdeildarinnar á sunnudaginn og svo er rúsínan í pylsuendanum sjálfur bikarúrslitaleikurinn, gegn Arsenal laugardaginn 30. maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×