Enski boltinn

Framtíð Advocaats óráðin

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Dick Advocaat hefur ekki enn ákveðið hvort hann muni stýra Sunderland áfram á næsta tímabili.

Advocaat tók við Sunderland í mars eftir að Gus Poyet var rekinn og undir hans stjórn hefur liðið verið duglegt að ná stig. Eitt slíkt gegn Arsenal í gær tryggði Sunderland áframhaldandi veru í úrvalsdeildinni.

„Ég þarf að skoða alla möguleika,“ sagði Hollendingurinn eftir 0-0 jafntefli Sunderland og Arsenal í gærkvöldi.

„Ég mun gefa svar í næstu viku,“ bætti Advocaat við en hann grét af gleði eftir leikinn í gær.

Hinn 67 ára gamli Advocaat, sem hefur marga fjöruna sopið, segist hafa notið tímans á Ljósvangi.

„Þetta snýst ekki um mig. Þetta snýst um alla sem koma að félaginu, eigandanum Ellis Short, starfsliðinu og leikmönnunum. Það er auðveldast að vinna með liði þegar allir trúa á verkefnin og sú hefur verið raunin.“

Sunderland hefur náð í 12 stig í átta leikjum undir stjórn Advocaat en liðið sækir Englandsmeistara Chelsea heim í lokaumferð úrvalsdeildarinnar á sunnudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×