Enski boltinn

Jose Mourinho og Eden Hazard bestir á tímabilinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jose Mourinho og Eden Hazardþ
Jose Mourinho og Eden Hazardþ Vísir/Getty
Chelsea fékk bæði verðlaunin þegar valnefnd ensku úrvalsdeildarinnar gerði upp tímabilið sem endar með lokaumferðinni á sunnudaginn kemur. Jose Mourinho var kosinn besti knattspyrnustjórinn og Eden Hazard var valinn besti leikmaðurinn.

Valið kemur ekki mikið á óvart enda vann Chelsea yfirburðarsigur í ensku úrvalsdeildinni í ár og Belginn Eden Hazard lék þar mjög stórt hlutverk.

Þetta var fyrsti Englandsmeistaratitill Chelsea í fimm ár en í þriðja sinn sem Jose Mourinho vinnur ensku deildina með félaginu sem hann tók fyrst við árið 2004. Það sem vekur þó nokkra athygli að Jose Mourinho var aldrei kosinn knattspyrnustjóri mánaðarins á tímabilinu.

Aðrir sem komu til greina sem knattspyrnustjóri tímabilsins voru þeir Ronald Koeman (Southampton), Garry Monk (Swansea), Nigel Pearson (Leicester) og Arsene Wenger (Arsenal).

Eden Hazard, sem er 24 ára gamall, hefur hreinsað upp einstaklingsverðlaunin að undanförnu enda frábær á sínu þriðja tímabili í ensku úrvalsdeildinni. Hazard var með 14 mörk og 9 stoðsendingar í 37 leikjum en margoft var framlag hans munurinn í jöfnum leikjum Chelsea-liðsins.

Það komu átta leikmenn til greina sem besti leikmaður tímabilsins og Eden Hazard fékk líklega mestu samkeppnina frá liðsfélögum sínum John Terry, Cesc Fabregas og Nemanja Matic.

Aðrir sem komu til greina voru Sergio Aguero (Manchester City), David de Gea (markvörður Manchester United), Harry Kane (Tottenham) og Alexis Sanchez (Arsenal).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×